Kaffiræktun í Honduras

Í mars 2019 fór ég í tveggja vikna ferð um Honduras og yfir til Níkaragúa til að mynda kaffibændur og kaffiræktun. Ég kynntist Claudiu Albir, sem er kaffibóndi frá Honduras en búsett á Íslandi, í janúar árið 2019. Tveimur mánuðum seinna var ég farin í ótrúlegt ferðalag með þessari nánast ókunnugu konu í landi sem er þekktast fyrir að vera með höfuðborg sem er lýst sem “the murder capital of the world”. Fyrstu tveir dagarnir fóru í að skoða lífið við strendur Tela í suður Honduras en eftir það tóku við tvær vikur af stanslausri keyrslu alveg niður til Níkaragúa. Mín takmarkaða kunnátta af kaffi samanstóð nánast eingöngu af því að velja gott kaffi út í búð. Hér opnaðist fyrir mér heill heimur af fólki sem vinnur baki brotnu við að rækta kaffi en fær nánast ekkert fyrir þegar það selur baunirnar út úr landinu.